Íslenski hópurinn er lentur og búinn að koma sér vel fyrir í Emmen í Hollandi þar sem opna hollenska mótið í frjálsum íþróttum fer fram um helgina. Hópurinn fór í morgun í heimsókn á keppnisvöllinn og skoðaði aðstæður.
Tveir keppendur frá Íslandi taka þátt í mótinu en það eru þau Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Baldur Ævar Baldursson. Ingeborg er að keppa á sínu fyrsta alþjóðlega móti sem er viðurkennt af IPC (alþjóðaólympíusambandi fatlaðra).
Veður ytra var milt í morgun samkvæmt Kára Jónssyni öðrum af tveimur þjálfurum í ferðinni, 14 stiga hiti en sólarlaust og stöku skúrir. Keppni hefst svo á morgun, laugardag, og lýkur á sunnudag.
Ljósmynd/ Kári Jónsson: Baldur Ævar og Ingeborg Eide við frjálsíþróttavöllinn í Emmen í Hollandi.