Aðalfundur Nord-HIF: Ísland með formennsku næstu þrjú árin


Á Aðalfundi Nord-HIF (Íþróttasambanda fatlaðra á Norðurlöndum) sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum 9. – 10. apríl sl. tók Ísland við formennsku í samtökunum næstu þrjú árin. Fund þennan sátu f.h. ÍF þeir Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður og Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs.

Nord-HIF samtökin voru stofnuð hér á landi 1979 og halda árlega fundi, til skiptis á Norðurlöndunum auk þess sem framkvæmdastjórar landanna hittast á fundum einu sinn á ári. Skiptast löndin á að fara með formennsku og skrifstofu samtakanna og þar með að koma fram fyrir hönd þeirra í hinum ýmsu málum sem tengjast íþróttum fatlaðra á Norðurlöndum.
Hvert land fer með formennsku í Nord-HIF þrjú ár í senn og á aðalfundinum í ár tók Ísland við formennsku og skrifstofu samtakanna, en undanfarin þrjú ár hafa Færeyingar gengt formennsku.

Þetta er í þriðja sinn er Ísland leiðir þessi samtök þar sem Sigurður Magnússon var formaður árin 1983 – 1984, Ólafur Jensson frá 1992 – 1995 og nú mun Sveinn Áki Lúðvíksson gegna formennsku næstu þrjú árin. Til gamans má geta að Sveinn Áki var ritari samtakanna í fyrra skiptið og varaformaður í seinna skiptið.

Á fundum Nord-HIF er fjallað um þau mál sem orðið geta íþróttum fatlaðra og fötluðu íþróttafólki til framdráttar hvort heldur sem er á norrænum- eða alþjóðavettvangi og hafa Norðurlöndin þannig verið leiðandi í stefnumótun íþrótta fatlaðra á alþjóðavettvangi.

Á aðalfundinum í ár voru samþykkt félagsgjöld aðildarlandanna til næstu þriggja ára, tekin fyrir málefni sem tengjast íþróttastarfi fatlaðra sér í lagi hvað varðar Norrænt barna- og unglingamót sem og norrænt samstarf í tengslum við þátttöku landanna í Ólympíumóti fatlaðra 2012. Einnig voru kynnt málefni hinna ýmsu alþjóðasamtaka fatlaðra s.s. INAS FID (íþróttasamtök þroskaheftra afreksmanna), IBSA (íþróttasamtök blindra) sem og Special Olympics samtakanna.

Þá var samþykkt að frumkvæði Íslands að efnt yrði til ráðstefnu um framtíð Nord-HIF en miklar breytingar hafa átt sér stað t.a.m. í Noregi þar sem íþróttir fatlaðra eru nú á höndum hinna ýmsu sérsambanda þar og Svíar stefna í sömu átt.  Því er þörf breytinga á lögum Nord-HIF og vegvísi á hvern hátt Norðurlöndin sjá fyrir sér norrænt samstarf í framtíðinni.

Á myndinni afhendir Jögvan Jensen, formaður færeyska sambandsins, Sveini Áka Lúðvíkssyni fundarhamar Nord-HIF sem tákn um formennsku í samtökunum.