Í gær var úthlutað úr Afrekskvennasjóði Íslandsbanka og ÍSÍ og að þessu sinni voru 5 íþróttakonur og íþróttakvennahópar sem hlutu styrk, alls þrjár milljónir króna.
Erna Friðriksdóttir, 22 ára skíðakona frá Egilsstöðum, fékk 250.000 krónur vegna undirbúnings og keppni á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Vancouver. Erna er fyrsta íslenska konan sem keppir á Ólympíumóti fatlaðra.
Þá fengu þær Íris Guðmundsdóttir, Ragna Ingólfsdóttir og frjálsíþróttadeildir ÍR og Ármanns úthlutað úr sjóðnum.
Íþróttakonunum í hópnum er tryggð hágæða þjálfun og besta mögulega aðstaðan og aðstæður til æfinga og keppni hérlendis sem erlendis. Teymi sérhæfðra þjálfara og ráðgjafa skipuleggur og heldur utan um þjálfun íþróttakvennanna. Í Ólympíuhóp Ármanns eru þær Ásdís Hjálmsdóttir og Helga Margrét Þorsteinsdóttir. Hjá ÍR eru það þær Hulda Þorsteinsdóttir, Jóhanna Ingadóttir, Kristín Birna Ólafsdóttir og Sandra Pétursdóttir sem skipa hópinn.
Stjórn sjóðsins skipa þær Svafa Grönfeldt, Vanda Sigurgeirsdóttir og Þórdís Gísladóttir.
Ljósmynd/ ÍSÍ – Frá úthlutuninni í
gærdag.