Olís styrkir NM í boccia


Olíuverslun Íslands hf – Olís hefur endurnýjað styrktarsamning við Íþróttasamband fatlaðra. Að þessu sinni er um að ræða beinan fjárstuðning vegna þátttöku Íslands í Norðurlandamóti fatlaðra í boccia sem fram fer í Fredricia í Danmörku í maímánuði n.k.
Olís hefur um áratuga skeið stutt starfssemi sambandsins á margvíslegan hátt en auk fjárhagslegs stuðnings við NM í boccia býðst aðildarfélögum Íþróttasambands fatlaðra aðgangur að ýmsum þeim tilboðum og fríðindum sem Olís hefur upp á að bjóða s.s. Olískortum, fríðindakorti o.fl. Um slíkt er hægt er að sækja um á www.olis.is

Norðurlandamót fatlaðra í boccia er haldið annað hvert ár, til skiptis á hverju Norðurlandanna.
Nú í dag er boccia án efa vinsælasta keppnisgreinin sem fatlaðir leggja stund á. Vinsældir greinarinnar eru án efa komnar til af því hversu einfaldur leikurinn er og allir sem á annað borð geta kastað, ýtt eða sparkað kúlu, geta verið með. Á síðari árum hafa blindir og sjónskertir byrjað að leggja stund á boccia en þá er notaður hljóðgjafi til þess að staðsetja kúlurnar

Íþróttasamband fatlaðra hefur lagt metnað sin í að eignast íþróttamenn í fremstu röð í sem flestum íþróttagreinum og vill Olís með samningi þessum renna styrkari stoðum undir starfssemi Íþróttasambands fatlaðra.

Ljósmynd/ Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Sigurður K. Pálsson, markaðsstjóri Olís við undirritun nýja samningsins.