Vetrarólympíumóti fatlaðra lokið


Vetrarólympíumóti fatlaðra lauk formlega með glæsilegri skemmtun og flugeldasýningu á “Verðaunatorginu” í Whisler sunnudaginn 21. mars síðastliðinn. Þúsundir manna voru samankomin á torginu til að fylgjast með skemmtuninni sem einkenndist af miklu fjöri með skýrskotun til stolts Kanadamanna af landi og þjóð.

Fyrsta Vetrarólympíumót fatlaðra fór fram 1976 í Örnsköndsvik í Svíþjóð en síðan 1988 hafa Ólympíumót fatlaðra, bæði sumar og vetrarmót, verið haldin í kjölfar Ólympíuleikanna sjálfara í sama landi á sama stað.

Að þessu sinni tóku um 600 íþróttamenn frá 42 löndum þátt í mótinu þar sem innigreinarnar, íshokkí og krulla fóru fram í Vancouver en aðrar greinar í glæsilegu skíðasvæði bæjarins Whisler, um 100 km frá Vancouver. Rússar voru sigursælastir þjóða á mótinu að þessu sinni með samtals 38 verðlaun þar af 12 gull, í öðru sæti Þjóðverjar með 24 verðlaun og þar á eftir Kanada og Úkranía með samtals 19 verðlaun.

Í ræðu sem forseti IPC - Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra, Sir Phil Craven flutti þakkaði hann Kanadamönnum fyrir einstaklega vel heppnað mót. Öll aðstaða og framkvæmd hefði verið til fyrirmyndar og einstök hjálpsemi allra, hvort heldur sjálfboðaliða eða annarra, verið landi og þjóð til sóma og gert þessa vetrarleika að þeim bestu sem hingað til hefðu verið haldnir.

Næsta Vetrarólympíumót fatlaðra verður haldið í Sochi í Rússlandi 2014. Vonandi  verður Ísland meðal þátttökuþjóða, því með þátttöku sinni í mótinu að þessu sinni sýndi íslenski keppandinn Erna Friðriksdóttir  það og sannaði að Ísland á fullt erindi meðal þeirra bestu í Vetrarólympíumótum fatlaðra.