Erna mætt til Vancouver og fer á æfingu í dag


Erna Friðriksdóttir og Scott Wayne Olson þjálfari NSCD, Winter Park komu í Ólympíuþorpið í Vancouver frá Bandaríkjunum síðastliðinn mánudag. Í gær var verið að skoða aðstæður og áætlað að Erna fari á sína fyrstu æfingu á keppnissvæðinu í dag. Ólympíuþorpið er í um 10 mínútna fjarlægð frá keppnisstaðnum, Whistler Creekside.

Að sögn Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur, starfsmanns ÍF og aðalfararstjóri í ferðinni, eru aðstæður í Ólympíuþorpinu mjög góðar og stemmningin afslöppuð. ,,Áhersla er lögð á að reynt verði að leysa úr öllum málum sem upp koma og allir virðast boðnir og búnir til að láta hlutina ganga sem best,“ sagði Anna.

Íslenski hópurinn hefur aðsetur í blokk ásamt nokkrum öðrum þjóðum en Ísland er á sömu hæð og bandaríska landsliðið sem Erna hefur æft með undanfarið í undirbúningi fyrir Vetrarólympíumótið. Starfsfólk og þjálfarar NSCD Winter Park aðstoða fjórar þjóðir á leikunum auk Íslands vegna keppni í alpagreinum. Það eru Bretland, Serbía, Mexico og Nýja Sjáland. Ísland tengist því alþjóðlegu samvinnuverkefni þar sem samstarf þjálfara er mikið.

Ljósmynd/ Erna með íslenska fánann að vopni skömmu eftir að hún kom í Ólympíumótsþorpið.