Pálmi sýndi Audda réttu tökin


Í síðustu viku mættust kapparnir Auðunn Blöndal og Pálmi Guðlaugsson í sundlauginni en sú viðureign var hluti af sjónvarpsþætti þeirra Audda og Sveppa sem er á dagskrá Stöð 2 alla föstudaga. Auddi og Sveppi kepptu í hinum ýmsu íþróttum sem voru á RIG um helgina og í sundi fatlaðra mætti hann Pálma í lauginni eins og fyrr segir.

Sér til halds og trausts á bakkanum hafði Pálmi æfingafélaga sína í Fjölni en Sveppi studdi Audda með ráðum og dáð en það dugði skammt! Fyrsta grein var 50m. skriðsund þar sem Auddi fór á kostum með nýstárlegum sundtökum en þegar Pálmi hafði lokið ferðinni var Auðunn um það bil hálfnaður.

Fyrir keppnina hafði Pálmi tekið loforð af Audda að ef hann tapaði fyrir sér í skriðsundi þá myndi Auðunn mæta honum í flugsundi og úr varð mikið sjónarspil því viðlíka sundtök hafa sjaldan eða aldrei verið framkvæmd með jafn miklu kappi, og litlum árangri. Skemmtileg uppákoma í alla staði og hver veit nema Pálmi taki Audda í kennslustund í lauginni í náinni framtíð.

Myndasafn frá viðureign Audda og Pálma

Ljósmynd/ Pálmi og Fjölniskrakkarnir voru ánægð með keppnina gegn sjónvarpsstjörnunum Audda og Sveppa.