Vilhelm Hafþórsson er handhafi Sjómannabikarsins árið 2010 en nú fyrir skemmstu lauk Nýárssundmóti Íþróttasambands fatlaðra í innilauginni í Laugardal. Tæplega 90 krakkar á aldrinum 17 ára og yngri tóku þátt í mótinu en þau komu frá níu aðildarfélögum ÍF.
Fjölmörg glæsileg tilþrif sáust á mótinu og ljóst að framtíðin er björt ef þessir ungu sundmenn halda sér við efnið. Afrek mótsins vann Akureyringurinn Vilhelm Hafþórsson í 50m. skriðsundi er hann synti á tímanum 28,28 sek. Vilhelm hlaut 657 stig fyrir sundið og var því stigahæsti sundmaður mótsins og hlaut af því tilefni Sjómannabikarinn sem nú var afhentur í 27. sinn.
Kolbrún Stefánsdóttir frá Íþróttafélaginu Firði hafnaði í 2. sæti með 542
stig fyrir 50m. bringusund þar sem hún synti á tímanum 45,14 sek. Þá varð
Guðmundur Hermannsson, ÍFR, í 3. sæti með 443 stig er hann synti á 32,08 sek. í
50m. skriðsundi.
Þetta er aðeins í annað sinn síðan árið 1984 sem sundmaður frá Óðni á Akureyri vinnur Sjómannabikarinn en fyrst til þess var Anna Rún Kristjánsdóttir árið 1998.
Frú Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra var sérstakur heiðursgestur mótsins og afhenti sundmönnunum þremur sigurlaun sín í mótslok og þá afhentu Katrín og Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ öllum keppendum mótsins viðurkenningarskjal fyrir þátttöku sína.
Ljósmyndir/ Á efri myndinni eru sigurvegararnir þrír en
á þeirri neðri er Vilhelm með Sjómannabikarinn.