Mótið fór fram úr björtustu vonum


Sem formaður Íþróttasambands fatlaðra er ég bæði stoltur og þakklátur fyrir frábært Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi 2009 sem nú er nýafstaðið.

Þegar ÍF tók að sér að halda mótið vissum við að við ættum stuðning margra til að gera mótið sem best úr garði. Við fengum vilyrði ríkisvaldsins og Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð og okkar góðu samstarfsaðilar létu heldur ekki sitt eftir liggja en það mundi svo mest reyna á starfsmenn ÍF við framkvæmd mótsins.

Að mínu áliti fór mótið fram úr björtustu vonum og hjálpaðist allt að, góð þátttaka, framúrskarandi keppendur, mótsstaðurinn og aðstaðan og ekki síst framkvæmdin sjálf. Þar var úrvalsfólk í hverju rúmi og samstarf Íþróttasambands fatlaðra við mótsstjóra og sjálfboðaliða var eins og um eina heild væri að ræða. Þarna blandaðist saman fagfólk og sjálfboðaliðar undir styrkri stjórn Gústafs Adólfs Hjaltasonar og unnu saman eins og þeir væru að halda sitt 10. stórmót.

Að viðbættri aðkomu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Sundsambands Íslands og dómara á þeirra vegum, sýndi það sig og sannaði að Íslendingar geta auðveldlega tekið að sér að halda sundmót af öllum stærðargráðum, slík var fagmennskan. Jafnvel lagði Knattspyrnusamband Íslands okkur lið.

Ég vil þakka öllum þessum aðilum fyrir þeirra framlag en sérstaklega langar mig að færa stjórnar- og starfsmönnum ÍF þakkir fyrir þeirra fórnfúsa starf sem fór fram úr öllum veruleika.

Sveinn Áki Lúðvíksson
Formaður Íþróttasambands fatlaðra