Hjörtur rústaði gamla metinu sínu á afmælisdaginn


Þrekmennið Hjörtur Már úr Þorlákshöfn var fyrstur á blokkina í morgun og venju samkvæmt fór pilturinn á kostum enda á hann 14 ára afmæli í dag. Hjörtur rústaði gamla Íslandsmetinu sínu í 200m. skriðsundi í flokki S5. Hjörtur var skráður á mótið með tímann 4.20,04 mín. í 200m. skriðsundi en í morgun í undanrásum synti hann sig inn í úrslitin á nýju og glæsilegu Íslandsmeti, 4.01,02 mín. Magnaður árangur hjá þessum unga kappa úr Þorlákshöfn sem mun láta að sér kveða í úrslitum í kvöld.

Eyþór Þrastarson komst með naumindum inn í úrslit í 100m. skriðsundi í flokki S11 er hann synti á tímanum 1.07,71 mín. í undanrásum. Eyþór var skráður inn á mótíð með tímann 1.06,75 mín. og var því snöggtum yfir sínum besta tíma en verður engu að síður með í úrslitum í kvöld.

Íslendingar telfdu fram liði í 4x100m. skriðsundi og komu í mark á tímanum 6.40,54 mín. og komst liðið ekki í úrslit. Sveitina skipuðu þeir Hrafnkell Björnsson, Guðmundur Hermannsson, Pálmi Guðlaugsson og Hjörtur Már Ingvarsson.

Mynd/ Afmæliskappinn Hjörtur Már Ingvarsson á laugarbakkanum í morgun þar sem hann synti sig niður eftir undanrásirnar.