Glæsilegu Evrópumeistaramóti lokið í Laugardal


Nú rétt í þessu lauk Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi í innilauginni í Laugardal. Að loknum sjö veglegum keppnisdögum hafa níu Íslandsmet fallið en 73 Evrópumet og 24 heimsmet hafa verið slegin og ljóst að allir sterkustu sundmenn álfunnar komu í fantaformi til Íslands.

Þrír íslenskir sundmenn tóku þátt í úrslitum í kvöld þar sem Hjörtur Már Ingvarsson bætti sig enn frekar í 200m. skriðsundi er hann synti á tímanum 3.50,35 mín og bætti því Íslandsmetið sitt frá því í undanrásum í morgun um rúmar 10 sekúndur. Það þýðir að Hjörtur bætti tímann sinn í dag í 200m. skriðsundi um hálfa mínútu! Hjörtur hefur lagt mikið á sig í undirbúningnum fyrir EM og ljóst að allt erfiðið skilaði sér og gott betur.

Pálmi Guðlaugsson keppti í kvöld í 100m. baksundi og náði ekki að skáka Íslandsmeti sínu sem er 1.47,90 mín. því Pálmi synti á tímanum 1.48,42 mín í úrslitum.

Eyþór Þrastarson náði sér ekki á strik í kvöld í 100m. skriðsundi í flokki S11 þegar hann synti á tímanum 1.09,24 mín. og hafnaði hann í áttunda og síðasta sæti.

Íslendingar telfdu fram efnilegu liði á mótinu á aldursbilinu 14-18 ára og ljóst að þar finnast sundmenn sem vafalítið munu láta að sér kveða í framtíðinni.

Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem lögðu mótinu lið og hjálpuðu við að gera það ógleymanlegt. Verkefnið er það stærsta í sögu Íþróttasambands fatlaðra og viðeigandi hápunktur á 30 ára afmælisárinu.

Mynd/ Íslenski hópurinn við lok EM ásamt þjálfurum sínum.