Íslandsmet hjá Pálma og Hirti


Tvö Íslandsmet féllu í kvöld þegar sjötti og næstsíðasti keppnisdagur Evrópumeistaramóts fatlaðra í sundi fór fram. Þrekmennið úr Þorlákshöfn, Hjörtur Már Ingvarsson, rúllaði upp gamla Íslandsmetinu sínu í 100m. skriðsundi er hann bætti það um 10 sekúndur. Pálmi Guðlaugsson var líka í stuði er hann bætti sitt eigið Íslandsmet í 50m. flugsundi.

Eyþór Þrastarson gerir nú harða atlögu að langflestum Íslandsmetum Birkis Rúnar Gunnarssonar en í kvöld var Eyþór í fyrsta sundi þar sem hann synti á 1.18,94 mín. í 100m. baksundi. Tíminn dugði Eyþóri í 7. sæti en Birkir Rúnar heldur enn í Íslandsmetið sem er 1.17,53 mín. Eyþór er þó byrjaður að hrifsa metin af Birki en á dögunum sló Eyþór Íslandsmetið í 50m. skriðsundi en þá hafði met Birkis staðið í 13 ár! Eyþór var skráður á EM í baksundið með tímann 1.20,94 mín. og bætti sig því töluvert í dag en hann á þó eitt sund eftir sem er á morgun þegar hann syndir í 100m. skriðsundi.

Næstur á svið var Hjörtur Már Ingvarsson, sem verður 14 ára gamall á morgun, en Hjörtur fór gersamlega hamförum og bætti sitt eigið Íslandsmet um heilar 10 sekúndur! Gamla met Hjartar í 100m. skriðsundi í flokki S5 var 1.58,57 mín. en Hjörtur kom í bakkann í kvöld á tímanum 1.48,42 mín. og hefur Þorlákshafnarbúinn þrekmikli svo sannarlega sýnt á mótinu að hann ætli sér mikla hluti í framtíðinni. Þrátt fyrir bætinguna hafnaði Hjörtur í 8. sæti úrslitanna en getur vel við unað og verður forvitnilegt að fylgjast með kappanum í 200m. skriðsundi á morgun.

Sonja Sigurðardóttir var næst á pall í 100m. skriðsundi í flokki S5 og synti hún á tímanum 2.08,97 sem var 0,2 sekúndum lakari tími en skráningartími hennar á mótið. Þar með hefur Sonja lokið keppni á EM að þessu sinni.

Hið næstum því ómögulega gerðist í kvöld þegar félagarnir Jón Margeir Sverrisson og Ragnar Ingi Magnússon kepptu í 100m. skriðsundi í flokki S14. Jón Margeir hafnaði í 5. sæti og synti á nákvæmlega sama tíma og hann gerði í morgun í undarásum, 1.00,83 mín. Stærðfræðilegar líkur á þessum tíma hjá Jóni eru hverfandi og of flóknar fyrir greinarhöfund til að reikna en flestir geta sammælst um að synda upp á sekúndubrot í undanrásum og úrslitum sé afar ólíklegt.

Ragnar Ingi synti á tímanum 1.06,38 mín. sem er næstum því tveimur sekúndum lakari tími en hann synti á í undanrásum í morgun. Að svo búnu hafa allir fimm sundmennirnir frá Íslandi í flokki S14 lokið keppni á mótinu og hafa þeir allir staðið sig með mikilli prýði. Þær Anna Kristín Jensdóttir og Ragney Líf Stefánsdóttir hafa einnig lokið keppni en á morgun mun Hrafnkell Björnsson synda í sinni einu grein á mótinu sem verður 4x100m. boðsund (skrið).

Hjörtur Már var ekki einn um að setja Íslandsmet í kvöld því slíkt hið sama gerði Pálmi Guðlaugsson í flokki S6 er hann synti á tímanum 43,72 sek. í 50m. flugsundi. Pálmi komst naumlega inn í úrslitin á tímanum 44,95 sek. þar sem hann hafði betur gegn Antum Brazak frá Króatíu sem synti í morgun á tímanum 44,98 sek. Eldra Íslandsmet Pálma var 44,13 sek. sem hann setti í Ásvallalaug í mars á þessu ári.

Á morgun keppir Eyþór Þrastarson í 100m. skriðsundi S11, Pálmi Guðlaugsson keppir í 100m. baksundi í S6 og Hjörtur Már Ingvarsson keppir í 200m. skriðsundi S5. Þá verða fjórir sundmenn í 4x100m. skriðsundi en þeir eru Hrafnkell Björnsson, Guðmundur Hermannsson, Hjörtur Már Ingvarsson og Pálmi Guðlaugsson.

Mynd/Sölvi Logason: Hjörtur Már hefur farið á kostum í skriðsundi S5.