Fjöldi Íslendinga í úrslitum í kvöld


Undanrásum á sjötta keppnisdegi Evrópumeistaramóts fatlaðra í sundi var enda við að ljúka þar sem þrír íslenskir sundmenn syntu sig inn í úrslit í kvöld. Félagarnir Jón Margeir Sverrisson og Ragnar Ingi Magnússon komust í úrslit í 100m. skriðsundi í flokki S14 og Pálmi Guðlaugsson komst með sögulegum naumindum í úrslit í 50m. flugsundi í flokki S6.

Ragnar Ingi var fyrstur af stað í morgun og komst í úrslit er hann synti á 1.04,51 mín. í 100m. skriðsundi S14. Niðurstaðan var tæplega tveggja sekúndna bæting hjá Ragnari sem skráður var inn á mótið með tímann 1.06,05 mín.

Strax í næsta riðli var Jón Margeir Sverrisson og hann komst líka í úrslit á tímanum 1.00,83 og gerði þar veglega atlögu að Íslandsmeti Gunnars Arnar Ólafssonar. Íslandsmet Gunnars í 100m. skriðsundi er 59,18 sek. og verður fróðlegt að sjá hvort það met standi eftir kvöldið í kvöld. Bætingin var líka veruleg hjá Jóni sem skráður var inn á mótið með tímann 1.02,55 mín.

Aníta Ósk Hrafnsdóttir keppti líka í 100m. skriðsundi S14 í kvennaflokki og kom í mark á tímanum 1.25,12 mín. sem var persónuleg bæting hjá Anítu um 0,8 sek. en tíminn dugði henni ekki inn í úrslitin.

Pálmi Guðlaugsson var síðastur íslensku keppendanna í undanrásum er hann keppti í 50m. flugsundi í flokki S6. Fyrirfram var vitað að hörð barátta yrði framundan hjá Pálma við að tryggja sér sæti í úrslitum en kappanum tókst það engu að síður þar sem níundi maður var með 0,03 sek. lakari tíma en Pálmi. Hafnfirðingurinn öflugi syndir því í úrslitum í kvöld þar sem hann var með tímann 44,95 sek. sem er tæpum 0,8 sek. lakari tími en hann var með skráðan inn á mótið.

Í úrslitum í kvöld keppa líka þau Eyþór Þrastarson, Sonja Sigurðardóttir og Hjörtur Már Ingvarsson. Eyþór ríður á vaðið kl. 17:00 100m. baksundi í flokki S11 (blindir).

Þau sem keppa í úrslitum í kvöld eru:
Eyþór Þrastarson
Hjörtur Már Ingvarsson
Sonja Sigurðardóttir
Jón Margeir Sverrisson
Ragnar Ingi Magnússon
Pálmi Guðlaugsson

Mynd/ Jón Margeir Sverrisson stingur sér til sunds í undanrásum í morgun.