Undanrásum á fimmta keppnisdegi var rétt í þessu að ljúka þar sem tveir íslenskir sundmenn tryggðu sér sæti í úrslitum í kvöld. Þeir Jón Margeir Sverrisson og Adrian Óskar Sindelka Erwin komust í úrslit í 200m. fjórsundi í flokki S14 (þroskahamlaðra). Báðir bættu þeir tímana sína í sundinu og Jón Margeir fór á kostum er hann bætti tímann sinn um 9 sekúndur!
Anna Kristín Jensdóttir var fyrst íslensku keppendanna í lauginni í dag er hún synti í 100m. bringusundi í flokki SB5 (B fyrir bringusund). Anna komst ekki í úrslit þar sem hún synti á tímanum 2.31,31 en hún var skráð inn á mótið á tímanum 2.29,86.
Guðmundur Hermannsson hélt uppteknum hætti er hann synti á 32,46 sek. í 50m. skriðsundi í flokki S9 en Guðmundur var skráður inn á mótið á tímanum 35,24 sek. Frábær frammistaða hjá Guðmundi sem hefur bætt tímana sína verulega á mótinu en þrátt fyrir þessa vösku framgöngu tókst honum ekki að tryggja sér sæti í úrslitum.
Ísafjarðarmærin Ragney Líf Stefánsdóttir var þriðja í röðinni er hún keppti í 50m. skriðsundi í flokki S9. Ragney komst ekki í úrslit þrátt fyrir að hafa bætt tímann sinn en hún synti á 34,91 sek. og bætti sig um tæpar tvær sekúndur þar sem hún fór inn á mótið með tímann 36,09 sek. Íslandsmetið í greininni á Lilja María Snorradóttir en metið í flokknum hefur staðið frá árinu 1992 þar sem Lilja María setti metið á Ólympíumóti fatlaðra í Barcelona.
Félagarnir Jón Margeir Sverrisson og Adrian Óskar Sindelka Erwin kepptu svo saman í undanrásum í 200m. fjórsundi í flokki S14. Jón Margeir var í ham og bætti tímann sinn um 9 sekúndur er hann synti á tímanum 2.36,04 mín en hann fór á mótið með tímann 2.45,74 mín. Arian Óskar var skráður til leiks á tímanum 3.00,86 en synti á tímanum 2.59,33 mín. Jón Margeir á fjórða besta tímann inn í úrslit en Adrian á sjöunda besta tímann en ef íslensku piltarnir hafa hug á því að komast á pall verða þeir að bretta upp ermar þar sem þrír bestu tímarnir eru um 10 sekúndum betri en tími Jóns Margeirs.
Aníta Ósk Hrafnsdóttir synti einnig í 200m. fjórsundi í flokki S14 en komst ekki í úrslit þrátt fyrir að hafa synt á sínum besta tíma, 3.28,59 mín.
Pálmi Guðlaugsson setti nýtt Íslandsmet í 100m. skriðsundi í flokki S6 er hann synti á tímanum 1.24,54 og þar með bætti hann sitt eigið Íslandsmet sem var 1.24,72 mín. en það met setti hann í febrúar á þessu ári. Þrátt fyrir Íslandsmetið komst Pálmi ekki í úrslit.
Þess má síðan geta að Evrópumeistaramótið verður í beinni útsendingu hjá RÚV kl. 17:00-18:00 í dag.
Myndir/Stefán Þór Borgþórsson: Jón Margeir bætti sig verulega en hann er hér á efri myndinni en á þeirri neðri er Ísafjarðarmærin Ragney Líf Stefánsdóttir.