Silfur í dag og fimm keppa á morgun


Þriðja keppnisdegi á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi er nú lokið og dró það helst til tíðinda hjá íslensku keppendunum í dag að Eyþór Þrastarson vann til silfurverðlauna í 400m. skriðsundi í flokki S11 (blindir).

Eyþór synti á tímanum 5.11,54 mín. sem er nokkuð undir hans besta tíma sem er 5.07,51 mín. sem hann náði á Opna þýska meistaramótinu í Berlín í sumar.

Strax á eftir Eyþóri keppti Pálmi Guðlaugsson í úrslitum í 50m. skriðsundi í flokki S6 þar sem Pálmi hafnaði í 8. sæti á tímanum 37,38 sek. en Pálmi synti í undanrásum á 37,15 sek. sem var nýtt Íslandsmet í flokki S6.

Sonja Sigurðardóttir keppti síðan í 50m. baksundi en það er sama grein og hún keppti í á Ólympíumóti fatlaðra í Peking. Sonja synti á tímanum 1.00,67 mín. en hún var skráð inn í mótið á tímanum 57,90 sek.

Síðastur í röðinni í dag var Ragnar Ingi Magnússon sem synti í 100m. baksundi í flokki S14. Ragnar stórbætti tímann sinn í morgun er hann synti á tímanum 1.16,21 mín en í úrslitum synti hann á tímanum 1.18,16 mín og hafnaði í 7. sæti.

Á morgun eru fimm íslenskir sundmenn sem synda á Evrópumótinu. Þrír í undanrásum og tveir fara í bein úrslit.

Undanrásir:
9:00: Guðmundur Hermannsson – 400m. skriðsund – S9
9:33: Eyþór Þrastarson – 50m. skriðsund – S11
9:45: Aníta Ósk Hrafnsdóttir – 100m. bringusund – S14

Bein úrslit:
20:14:  Ragnar Ingi Magnússson – 100m. bringusund – S14
Skúli Steinar Pétursson – 100m. bringusund – S14

Mynd/Stefán Þór Borgþórsson: Eyþór Þrastarson var að vonum sáttur við árangurinn í dag.