Sannkallað metaregn var í innilauginni í Laugardal í kvöld þegar annar keppnisdagurinn á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi fór fram. Alls voru það 10 heimsmet sem féllu og 14 Evrópumet!
Enginn íslensku keppendanna synti í dag en sex þeirra synda á morgun en það eru þau Eyþór Þrastarson, Sonja Sigurðardóttir, Pálmi Guðlaugsson, Skúli Steinar Pétursson, Aníta Ósk Hrafnsdóttir og Ragnar Ingi Magnússon.
Þess má geta að á meðal keppenda sem settu met í kvöld var þýska sundkonan Kirsten Bruhn en hún setti Evrópumet í 400m. skriðsundi í flokki S7 er hún synti á tímanum 5:24,91. Bruhn þessi stóð lengi í skugganum af einum albesta sundmanni Íslands, Kristínu Rós Hákonardóttur, sem einnig keppti í flokki S7. Bruhn tók við keflinu þar sem Kristín Rós skildi við það er hún lagði afrekssundmennskuna á hilluna. Kristín Rós Hákonardóttir hefur þó ekki sagt sitt síðasta í sundi því hún er verndari Evrópumeistaramótsins.
Greinar íslensku keppendanna á morgun:
Eyþór 400 skrið
Pálmi 50 skrið
Sonja 50 bak
Skúli Steinar 100
bak
Ragnar Ingi 100 bak
Aníta 100 bak
Það verður Pálmi Guðlaugsson sem ríður á vaðið í fyrramálið en hann keppir í annarri grein í undanrásum sem hefjast kl. 09:00. Sjá ráslista morgundagsins.
Mynd/Sölvi Logason: Frá EM í Laugardal.