Setningarathöfn Evrópumeistaramóts fatlaðra í sundi tókst með miklum myndarbrag í innilauginni í Laugardal í kvöld. Keppni á mótinu hefst svo í fyrramálið kl. 09:00 með undanrásum og úrslit hefjast svo kl. 17:00.
Troðfullt var í innilauginni þar sem Regína Ósk tók m.a. lagið, trúðar skemmtu gestum og Brassbandið lék ljúfa tóna fyrir athafnargesti ásamt mörgum öðrum mögnuðum sýningaratriðum. Að athöfn lokinni héldu keppendur, þjálfarar og fleiri í Laugardalshöll en þar er matsalur mótsins staðsettur og mikið verður þar um að vera á matmálstímum næstu vikuna enda nærri 700 manns skráðir til leiks.
Sundmennirnir Hrafnkell Björnsson og Jón Margeir Sverrisson voru fulltrúar Íslands í innmarseringu setningarathafnarinnar og uppskáru mikið og gott lófatak áhorfenda þegar þeir gengu inn í salinn með íslenska fánann.
Á morgun, eins og fyrr greinir, hefst keppnin og á meðal keppenda eru tveir íslenskir sundmenn, þau Sonja Sigurðardóttir og Hjörtur Már Ingvarsson. Hjörtur keppir í undanrásum í fyrramálið um kl. 09.40 í 50m. skriðsundi og þar strax á eftir, í næstu grein keppir Sonja Sigurðardóttir, líka í 50m. skriðsundi.
Sjá ráslistana fyrir keppnisdag 1
Myndir: Sölvi Logason: Frá setningarathöfninni í
Laugardalslaug í kvöld.