Vífilfell leggur EM lið


Vífilfell og Íþróttasamband fatlaðra hafa gert með sér samstarfssamning í tengslum við Evrópumeistaramót fatlaðra sem fram fer á Íslandi dagana 15.-25. október næstkomandi. Þeir Árni Stefánsson forstjóri Vífilfells og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF undirrituðu samninginn í höfuðstöðvum Vífilfells fimmtudaginn 8. október.

Á Evrópumeistaramótinu mun Vífilfell m.a. útvega mótshöldurum Pure Icelandic vatn. Flöskunum verður dreift til keppenda á laugarsvæði sem og í matsal sem staðsettur verður í nýja anddyri Laugardalshallar.

Vífilfell mun einnig leggja til sjálfboðaliða úr röðum starfsfólks fyrirtækisins til aðstoðar við framkvæmd mótsins en þar liggja ófá handtökin enda um að ræða stærsta alþjóðlega sundmót sem haldið hefur verið á Íslandi.

Við þennan nýja samning bætist Vífilfell í öflugan hóp samstarfsaðila mótsins sem er það stærsta í sögu Íþróttasambands fatlaðra og glæsilegur hápunktur á 30 ára afmælisári sambandsins.

Þess má geta að fyrstu keppendur til Íslands í tengslum við EM eru væntanlegir þann 13. október n.k.

Mynd: Árni Stefánsson t.v. og Sveinn Áki Lúðvíksson t.h.