Tvö Íslandsmet á Fjarðarmótinu í 25m. laug


Fjarðarmótið í sundi í 25m. laug fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði um síðastliðna helgi og var þátttakan góð enda margir sundmenn í lokaundirbúningi fyrir Evrópumeistaramót fatlaðra sem fram fer í Laugardalslaug 15.-25. október næstkomandi. Tvö Íslandsmet féllu á mótinu en þar voru að verki þau Hjörtur Már Ingvarsson, ÍFR, og Anna Kristín Jensdóttir, ÍFR. Bæði Anna og Hjörtur munu taka þátt á EM í næsta mánuði.

Breski sunddómarinn Sue Prasad var sérlegur gestur á mótinu en hún stóð fyrir veglegum fyrirlestri fyrir Fjarðarmótið þar sem íslenskir sunddómarar urðu margsvísir um sund fatlaðra. Dómararnir sem sátu fundinn hafa boðað sig til dómgæslu á Evrópumótinu í Laugardal. Að loknum fyrirlestri hjá Sue dæmdi hópurinn á Fjarðarmótinu og tókst það vel til. Sue er síðan væntanleg aftur til landsins í október þar sem hún verður ein af yfirdómurum Evrópumeistaramótsins.

Metin á Fjarðarmótinu:

Anna Kristín Jensdóttir – 100m. bringusund – flokkur SB5 – 2:28,19 mín.
Hjörtur Már Ingvarsson – 400m. skriðsund – flokkur S5 – 8:45,55 mín.

Úrslit mótsins má nálgast hér.

Myndasafn frá mótinu má nálgast hér.

Videobrot frá mótinu má nálgast hér.

Mynd: Öflugir kappar hér á ferð.