Þrettán íslenskir sundmenn taka þátt á EM í október

























Alls verða þrettán íslenskir sundmenn á meðal þátttakenda á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fer í innilauginni í Laugardal í október næstkomandi. Hópurinn var kynntur á blaðamannafundi Íþróttasambands fatlaðra í dag en fundurinn fór fram í húsi Orkuveitu Reykjavíkur þar sem skrifað var undir samning millum ÍF og Orkuveitunnar þess efnis að Orkuveitan yrði annar af tveimur stærstu styrktaraðilum mótsins. Hinn aðilinn er Össur hf. Það voru þeir Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Guðlaugur Gylfi Sverrisson stjórnarformaður OR sem undirrituðu samninginn.

Íslenska hópinn skipa eftirtaldir sundmenn:
Aníta Ósk Hrafnsdóttir, Fjörður
Anna Kristín Jensdóttir, ÍFR
Ragney Líf Stefánsdóttir, Ívar
Sonja Sigurðardóttir, ÍFR
Eyþór Þrastarson, ÍFR/Ægir
Pálmi Guðlaugsson, Fjörður/Sunddeild Fjölnis
Guðmundur Hermannsson, ÍFR/KR
Hjörtur Már Ingvarsson, ÍFR
Hrafnkell Björnsson, ÍFR
Adrian Óskar Sindelka Erwin, Ösp/Sunddeild Fjölnis
Skúli Steinar Pétursson, Fjörður
Ragnar Ingi Magnússon, Fjörður
Jón Margeir Sverrisson, Ösp/Sunddeild Fjölnis

Af þessum þrettán sundmönnum koma níu úr flokki hreyfihamlaðra/blindra og fimm úr flokki þroskaheftra. Í sundi fatlaðra er keppt í flokkum S1-10 fyrir hreyfihamlaða þar sem S1 táknar mestu fötlun og S10 minnstu fötlun. Flokkar S11-S13 eru flokkar blindra og sjónskertra og flokkur S14 er flokkur þroskaheftra íþróttamanna.

Búist er við 415 sundmönnum og um 250 aðstoðarmönnum á mótið að ótöldum erlendum gestum á borð við fjölmiðla, forsvarsmenn íþróttahreyfinga fatlaðra í Evrópu og fjölskyldumeðlimi keppenda og annarra þeirra sem mótið sækja.

Íþróttasamband fatlaðra ræðst nú í sitt stærsta verkefni frá upphafi og ekki amaleg áskorun á 30 ára afmælisárinu. Í fyrsta sinn síðan árið 2001 fer fram Evrópumeistaramót á vegum Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra (IPC) og í fyrsta sinn síðan árið 2000 fá þroskaheftir íþróttamenn keppnisleyfi á vegum IPC. Íþróttasamband fatlaðra hefur verið fremst á meðal jafningja í réttlætisbaráttu þroskaheftra íþróttamanna og nú hefur mikill áfangasigur verið unninn með framkvæmd EM á Íslandi þar sem þroskaheftir munu taka þátt.

Undirbúningur fyrir EM á Íslandi er nú vel á veg kominn en Íþróttasamband fatlaðra auglýsir eftir aðilum í sjálfboðaliðastörf við mótið og geta áhugasamir haft samband við skrifstofu ÍF ís síma 514 4080 eða á if@isisport.is

Mynd: Íslenski hópurinn í Orkuveituhúsinu í dag ásamt Kristínu Guðmundsdóttur landsliðsþjálfara og Kristínu Rós Hákonardóttur fyrrum afrekssundkonu en Kristín Rós er verndari Evrópumótsins á Íslandi. Á myndina vantar Ragney Líf Stefánsdóttur sundkonu frá Ívari á Ísafirði.