Þeir íslensku sundmenn sem taka munu þátt á Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi á Íslandi nú í október munu koma saman um helgina til æfinga. Hópurinn á langt og strangt sumar að baki og er nú á lokaspretti æfinga sinna fyrir átökin í október en von er á öllum bestu sundmönnum álfunnar til landsins. Þar á meðal verða heimsmeistarar og Ólympíumethafar svo vonir standa til þess að mótið verði eins sterkt og á verður kosið.
Hópurinn æfir í Laugardalslaug þar sem mótið fer fram. Tvær æfingar verða laugardaginn 5. september frá 9:30-12:00 og aftur 15:45-18:00. Sunnudaginn 6. september verður æft frá kl. 09:00-11:00.
Á næstu dögum mun Íþróttasamband fatlaðra kynna til leiks þá sundmenn sem skipa munu íslenska hópinn á meðan Evrópumeistaramótinu stendur.
Mynd: Eyþór Þrastarson er á meðal íslensku keppendanna
sem prýða munu Evrópumeistaramótið. Þess má geta að Eyþór á Evrópumet í flokki
S11 í 800m. skriðsundi en metið setti hann í Þýskalandi er hann synti á tímanum
10:32,16 mín.