Össur safnaði 323.500 krónum til handa ÍF!


Tæpar 7 milljónir króna söfnuðust til styrktar góðgerðarfélögum í Reykjavíkurmaraþoninu sem fram fór í ágústmánuði síðastliðnum en 11.400 manns tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.

Eins og undanfarin ár gafst öllum hlaupurum, fyrir utan þátttakendur í Latabæjarhlaupinu, kostur á að hlaupa til góðs, þ.e. að láta heita á sig til styrktar góðgerðarfélagi. 4.332 nýttu sér þennan möguleika af þeim 7.400 sem stóð það til boða. Þar af voru 863 hlauparar sem einhver áheit fengu.

Í ár voru 80 manns á vegum Össurar sem hlupu til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra og söfnuðu 323.500 krónum. Það var Edda Heiðrún Geirsdóttir forstöðumaður alþjóðamarkaðsdeildar Össurar sem afhenti Ólafi Magnússyni framkvæmdastjóra fjármála- og afrekssviðs ÍF styrkinn á skrifstofu ÍF síðastliðinn mánudag.

Íþróttasamband fatlaðra þakkar Össuri hf. veglegt framlag en Össur er einn af stærstu styrktar- og samstarfsaðilum ÍF.

Myndir: Frá afhendingu styrksins og frá Reykjavíkurmaraþoninu.