Heimsleikar þroskaheftra í Tékklandi


Global Games eða Heimsleikar þroskaheftra eru haldnir í Tékklandi dagana 5. - 14. júlí 2009.  Leikarnir eru skipulagðir af alþjóðaíþróttahreyfingu þroskaheftra ( INAS - FID) og íþróttasambandi fyrir þroskaheftra í Tékklandi. (CSAMH).   

Afreksfólk úr röðum þroskaheftra keppir þar í frjálsum íþróttum, hjólreiðum, körfubolta, knattspyrnu, sundi, borðtennis, tennis og júdó. 

Íþróttasamband fatlaðra sendir tvo keppendur á leikanna en þeir eru sundmennirnir Jón Margeir Sverrisson íþróttafélaginu Ösp og Ragnar Ingi Magnússon, íþróttafélaginu Firði, Hafnarfirði.  Þjálfarar og fararstjórar eru Ingi Þór Einarsson og Ingigerður Stefánsdóttir auk þess sem Þórður Árni Hjaltested, gjaldkeri ÍF og varaformaður INAS-Fid Evrópu verður viðstaddur leikanna.

Það verður spennandi að fylgjast með þessum ungu og efnilegu sundmönnum í keppni við þá bestu í heiminum en Ísland hefur í gegnum tíðina átt á að skipa sundmönnum í fremstu röð.  Sundkeppnin fer fram dagana 7. - 10. júlí og mun verða greint frá árangri þeirra Jóns Margeirs og Ragnar Inga jafnóðum og þau berast.

1.460 þátttakendur frá 40 löndum mæta á leikana sem eru stærstu leikar þroskaheftra og hugsaðir sem eins lags Ólympíumót þessa fötlunarflokks þar sem þroskaheftir íþróttamenn hafa ekki tekið þátt í Ólympíumótum fatlaðra síðan í Sydney árið 2000. 

Þetta er í annað skipti sem slíkir leikar eru haldnir en árið 2004 fóru þeir fram í Svíþjóð.  Þroskaheftir keppendur hafa verið útilokaðir frá þátttöku í mótum IPC ( alþjóðaíþróttahreyfingar fatlaðra) frá árinu 2000.  Þessi ákvörðun kom í kjölfar þess að upp komst að liðsmaður í körfuboltaliði Spánverja á Ólympíumótinu í Sydney var ófatlaður.  Maðurinn sem var blaðamaður hafði náð að villa á sér heimildir og í kjölfar þessa hófst vinna við endurskoðun flokkunarkerfis sem erfitt hefur reynst að finna lausn á.  Ísland hefur verið eitt af þeim löndum sem hvað harðast hefur barist fyrir því að málið verði endurskoðað og þroskaheftir verða í fyrsta skipti frá árinu 2000 þátttakendur á móti á vegum IPC en það er Evrópumót í sundi sem fram fer á Íslandi í október 2009.  Ísland neitaði að halda þetta mót nema þroskaheftir yrðu með og vonast er til þess að lausn finnist sem gerir þeim kleift að taka þátt í ólympíumóti fatlaðra 2012 í London.

Opnuanarhátíð leikanna er í dag, 6. júli.
Heimasíða leikanna er www.globalgames2009.com 

Mynd frá vinstri: Þórður Árni Hjaltested gjaldkeri ÍF og varaformaður INAS-Fid Evrópu, Jón Margeir Sverrisson, Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF, Ragnar Ingi Magnússon, Ingigerður M. Stefánsdóttir þjálfari og Ingi Þór Einarsson þjálfari.