Frábær frammistaða í frjálsum


Keppni í frjálsum íþróttum á Norræna barna- og unglingamótinu í Eskilstuna fór fram í dag í 33 stiga hita. Þrátt fyrir blíðviðrið fór íslenski frjálsíþróttahópurinn á kostum og rakaði til sín verðlaunum enda dyggilega studdur áfram í stúkunni.

Þau sem kepptu fyrir Íslands hönd í frjálsum voru Ingeborg Eide Garðarsdóttir, langstökk, 100m. hlaup og 400m. hlaup. Almar Þór Þorsteinsson, 100m. hlaup og kúluvarp og svo Sigurjón Sigtryggsson 100m. hlaup, 400m. hlaup og kúluvarp.

Skemmst er frá því að segja að Ingeborg vann silfur í langstokki, brons í 100m. hlaupi og brons í 400m. hlaupi. Almar vann til gullverðlauna í kúluvarpi og Sigurjón Sigtryggsson til silfurverðlauna. Þá vann Sigurjón til silfurverðlauna í 100m. hlaupi og til gullverðlauna í 400m. hlaupi. Sannarlega glæstur árangur hjá þessum efnilega hóp sem á vísast eftir að láta vel að sér kveða þegar fram líða stundir.

Þessa stundina fer fram lokahóf Norræna barna- og unglingamótsins þar sem grillaðir voru hamborgarar og nú innan skamms heldur hópurinn á diskótek þar sem dansað verður frameftir og svo beina leið í háttinn. Íslenski hópurinn heldur svo snemma af stað heim á leið og er væntanlegur með rútu við Íþróttamiðstöðina í Laugardal á milli kl. 17 og 18 á morgun.

Mynd: Íslenski hópurinn með verðlaunin sín úr frjálsíþróttakeppninni í dag. Með þeim á myndinni er frjálsíþróttaþjálfarinn í ferðinni, Egill Þór Valgeirsson.