Keppni í sundi fór fram í dag á Norræna barna- og unglingamótinu sem nú stendur yfir í bænum Eskilstuna í Svíþjóð. Íslenski hópurinn telfdi fram 11 sundmönnum sem allir stóðu sig með glæsibrag. Nokkuð var um bætingar og sumir voru að taka þátt á sínu fyrsta móti erlendis og gerðu svo af miklum myndarskap.
Að sundmótinu loknu í dag hélt keppnin áfram í nýjum og framandi íþróttum og var keppt í rafmagnshjólastólaknattleik, bogfimi og mini-golfi. Keppnin í rafmagnshjólastólaknattleiknum var æsispennandi og þurfti vítakeppni til að útkljá sigurinn þar sem Hjörtur Már Ingvarsson skoraði sigurmark Íslands gegn Norðmönnum. Með Hirti í liði var Bjarndís Sara Breiðfjörð en þau Hjörtur og Bjarndís sýndu sannkallaðar stáltaugar í keppninni og uppskáru mikið lófatak þegar sigurinn var í höfn.
Eftir mikinn keppnisdag var förinni heitið til Malarvíkur rétt utan við Eskilstuna en þar kom hópurinn saman í myndarlegri laut og grillaði ásamt því að keppa í boccia. Skemmst er frá því að segja að Ísland hafði 4-2 sigur gegn Færeyingum í boccia þar sem Ívar Egilsson fór gersamlega á kostum með kúlurnar og á ögurstundu tryggði hann Íslandi sigurinn.
Sannarlega glæsilegur dagur að baki en á morgun fer fram keppni í frjálsum íþróttum en þar keppa Sigurjón Sigtryggsson, Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Almar Þór Þorsteinsson.
Mynd: Sunna Ósk Stefánsdóttir sýndi góða takta í bocciakeppninni í dag. Lengst til hægri er Ívar Egilsson sem tryggði Íslandi sigur gegn frændum okkar frá Færeyjum í bocciakeppninni.