Púlað í 35 stiga hita


Hitinn fór upp í allt að 35 stigum í Eskilstuna í dag á Norræna barna- og unglingamótinu. Íslensku krakkarnir fóru á tvær æfingar í dag, eina fyrir hádegi og aðra eftir hádegi svo nú undir kvöldmat var hópurinn ansi þreyttur. Í kvöld er opið hús þar sem Svíarnir hafa m.a. undirbúið skemmtilega stökkdýnu og vitaskuld verður látið reyna á þanþol tækisins með viðeigandi hoppum og skemmtilegheitum.

Eins og sönnum Íslendingum ber á sólarstað þá eru nokkrir ferðalangar sem hafa sólbrunnið en enginn alvarlega. Allir eru duglegir að bera á sig sólarvörn en á morgun er spáð 26 stiga hita og skýjuðu veðurfari á köflum.

Það var svo mikið fjör á frjálsíþróttaæfingu í dag en Egill Þór Valgeirsson frjálsíþróttaþjálfari í ferðinni tók að sér að stýra öllum Norðurlandaþjóðunum á æfingunni. Vel var tekið á því og að æfingu lokinn er óhætt að segja að Egill hafi ekki verið manna vinsælastur á staðnum og margir brigsluðu hann um hreinasta púl og pyntingar. Á æfingunni eftir hádegi var Egill enn við stjórnartaumana en sú æfing var þannig úr garði gerð að Egill endurheimti allar sínar vinsældir og var æfingin fjarri því jafn erfið og í morgun.

Á morgun verður nóg um að vera og fyrir utan venjubundnar æfingar er skipulögð heimsókn í nærliggjandi dýragarð þar sem einnig gefur að finna hin ýmsu tívolítæki.

Mynd: Egill Þór fer fyrir hópnum á frjálsíþróttaæfingunni fyrir hádegi í dag. Krakkarnir tóku vel á því undir handleiðslu Egils.