Hópurinn kominn á áfangastað í brakandi blíðu


Tuttugu manna hópur er nú kominn út til Eskilstuna í Svíþjóð frá Íþróttasambandi fatlaðra. Um er að ræða 14 krakka á aldrinum 12-16 ára sem taka munu þátt í mótinu og 6 fararstjóra. Íslenski hópurinn lagði eldsnemma af stað í morgun og lenti í Stokkhólmi laust fyrir hádegi í brakandi blíðu eða um 25 stiga hita.

Ferðalagið hefur gengið ljómandi vel til þessa og aðstæður allar til fyrirmyndar í Munktell Arenan í Eskilstuna en þar eru Norðurlöndin með gisti- og mataraðstöðu. Þegar hópurinn hafði lokið við að koma sér fyrir var snæddur kvöldverður og loks farinn stuttur göngutúr í kringum nánasta umhverfi. Stefnt er að því að fara snemma í háttinn í kvöld enda langt ferðalag að baki og nóg um að vera á morgun.

Framundan er svo vegleg dagskrá við æfingar, keppni og prufu á nýjum íþróttum ásamt hinum ýmsu ferðum og heimsóknum.

Mynd: Margrét Kristjánsdóttir og Almar Þorsteinsson grandskoða bæjarkortið af Eskilstuna.