Að loknu Evrópumeistaramóti


Íslenski hópurinn sem tók þátt á Evrópumeistaramóti fatlaðra í borðtennis í Genova á Ítalíu er væntanlegur heim í dag. Hópinn skipuðu þeir Helgi Þór Gunnarsson, þjálfari, Jóhann Rúnar Kristjánsson, NES, og Tómas Björnsson, ÍFR. Heimasíða ÍF náði tali af Helga á Ítalíu og bað hann um stuttlegt mat á frammistöðu íslenska hópsins ytra.

,,Tómas var ekki að spila sinn besta leik á þessu Evrópumeistaramóti. Hann hafði verið að standa sig mjög vel á æfingum og því batt ég ákveðnar vonir við að hann myndi stríða þessum strákum eitthvað. Tómas átti samt sinn besta leik á móti Spánverja sem hafnaði í 4. sæti á mótinu. Við fórum aðeins yfir nokkur atriði sem við munum fara með heim og reyna að byggja meira ofan á,“ sagði Helgi um frammistöðu Tómasar en hvað Jóhann varðar þá landaði hann sínum fyrsta sigri á Evrópumeistaramóti þegar hann lagði keppanda frá Slóvakíu og komst áfram í 12 manna úrslit.

,,Jóhann var pínulítið brokkgengur. Hann spilaði ágætlega við strák frá Ísrael í Opna flokknum en samt var hann eitthvað ragur við spaðann hjá mótspilaranum en samt sem áður vorum við búnir að vera að æfa mörg afbrigði af spöðum til að reyna að undirbúa það óvænta. Síðan spilaði hann ekki nógu vel á móti Ólympíumótsmeistaranum frá Frakklandi og átti ekki möguleika þar en síðan spilaði hann vel á móti Slóvaka og vann sannfærandi 3-1 og hefði alveg getað unnið hann 3-0,“ sagði Helgi en þegar í 12 manna úrslitin var komið harðnaði róðurinn til muna.

,,Strákarnir stóðu sig að öðru leyri mjög vel og voru þjóðinni og sambandinu til sóma,“ sagði Helgi Þór að lokum.