Jóhann kominn áfram í sitjandi flokki


Það hefur gengið upp og ofan hjá þeim félögum Jóhanni og Tómasi á Evrópumeistaramóti fatlaðra í borðtennis sem nú fer fram í Genova á Ítalíu. Jóhann Rúnar er kominn áfram í sitjandi flokki en Tómas er fallinn úr leik. Báðir duttu þeir snemma úr leik í opnum flokki en Jóhann heldur áfram á morgun.

Jóhann keppir í fötlunarflokki C2, en hann er lamaður fyrir neðan brjóst. Tómas keppir í flokki C6. Flokkum hreyfihamlaðra í borðtennis er skipt í 10 flokka þar sem C1 - C5 er sitjandi flokkur og flokkur C1 er flokkur mest fatlaðra. Flokkar C6 - C10 eru standandi flokkar þar sem C6 eru mest fatlaðir.

Á föstudag mætti Tómas keppanda í opnum flokki en Tómas náði sér ekki á strik og mátti sætta sig við ósigur gegn Slóvakanaum sem er keppandi í klassa 10. Helgi Þór þjálfari í ferðinni sagði að á betri degi ætti Tómas vel að geta strítt Slóvakanum en það hafðist ekki þennan föstudaginn.

Jóhann Rúnar mætti spilara frá Ísrael sem er í klassa 3 og mátti líka þola ósigur en það var ekki fyrr en í oddalotunni og fór hún 8-11. "Þetta var hörkuleikur en við lögðum ekki í að spila forhöndina á þessum spilara," sagði Helgi en á laugardag fór fram setningarathöfn leikanna þar sem piltarnir fengu smá frí.

Á laugardeginum varð það ljóst að Jóhann Rúnar væri í flokki með Ólympíumeistaranum frá Frakklandi og sterkum spilara frá Slóvakíu. Til þess að komast áfram varð Jóhann að vinna einn leik í riðlinum.

Tómas lenti í riðli með Spánverja, Rúmena og Þjóðverja og hafði hann áður mætt öllum nema Þjóðverjanum svo þar renndu Íslendingar nokkuð blint í sjóin.

Á sunnudag mætti Tómas svo keppendunum frá Rúmeníu og Þýsklandi og tapaði báðum leikjunum 3-0. Hann mætti Spánverjanum í dag en von er á úrslitum úr þeirri viðureign.

Í gær mætti Jóhann Rúnar Ólympíumótsmeistaranum frá Frakklandi og beið hann 3-0 ósigur. Í dag mætti Jóhann svo slóvenska spilaranum og hafði betur og er því kominn áfram og upp úr riðlinum sínum.

Nánari tíðanda af Evrópumeistaramótinu í borðtennis er að vænta síðar í dag eða á morgun.