Bætingar hjá Eyþóri í Þýskalandi


Sundmaðurinn Eyþór Þrastarson, ÍFR/Ægir, keppti á opna þýska meistaramótinu í sundi um hvítasunnuhelgina þar sem hann setti nýtt og glæsilegt Íslandsmet í 800m. skriðsundi. Í 800m. skriðsundi synti hann á 10:32,16 mín. sem er nýtt met.

Eyþór bætti sig nokkuð í öðrum greinum og komst í úrslit í 200m. skriðsundi þar sem hann synti á tímanum 2:26,61 mín. Í 100m. skriðsundi náði Eyþór einnig að bæta sig á tímanum 1:06,75 mín. sem er bæting um 3 sekúndur hjá honum.

Á Ólympíumótinu í Peking komst Eyþór í úrslit í 400m. skriðsundi þar sem hann synti á tímanum 5:15,63 mín. en í undanrásum í því sundi setti hann persónulegt met á tímanum 5:11,54 mín. Í Þýskalandi um helgina synti Eyþór á tímanum 5:07,71 í undanrásum og var svo í úrslitum á tímanum 5:06,24 í úrslitum og bætti því besta tímann sinn um rúmar 5 sekúndur.

Ekki gekk jafn vel í 100m. baksundi þar sem Eyþóri tókst ekki að bæta sig en í 50m. skriðsundinu bætti hann sig lítillega og synti á 31,65 sek.

Ingi Þór Einarsson, annar tveggja landsliðsþjálfara ÍF í ferðinni, sagði í samtali við heimasíðu ÍF að Eyþór hefði lært mikið af mótinu í Þýskalandi: ,,Eyþór á mikið inni enda hefur hann æft mikið og vel undanfarið,“ sagði Ingi en var hæstánægður með bætingarnar.

Mynd: Eyþór Þrastarson bætti sig töluvert um helgina í Þýskalandi.