Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson gerði góða ferð til Rúmeníu um helgina þar sem opna rúmenska borðtennismótið fór fram. Jóhann landaði gullverðlaunum í liðakeppninni eða ,,team play“ þar sem Ítalinn Julius Lampachaer var liðsfélagi hans. Sigurinn kom ekki á silfurfati þar sem Jóhann og Julius léku til úrslita gegn andstæðingum sínum á þriðju klukkustund.
Í einliðaleiknum komst Jóhann upp úr sínum riðli en mátti þola ósigur í 8 manna úrslitum. Mótið var alþjóðlegt punktamót og sigurinn hjá Jóhanni mikilvægur fyrir framhaldið. Næst á dagskrá er Evrópumeistaramótið sem fram fer á Ítalíu dagana 3.-11. júní n.k. og sagði Jóhann í samtali við heimasíðu ÍF að hann ætlaði sér að reyna að koma á óvart í opna flokknum á Ítalíu því þar hefði hann engu að tapa.
Glæstur árangur hjá Jóhanni og óskar ÍF honum innilega til hamingju.