Flottur árangur hjá Jóni og Ragnari í Sheffield


Á laugardag syntu þeir Jón Margeir Sverrisson og Ragnar Ingi Magnússon báðir í A-úrslitum í 400m. skriðsundi og stóðu þeir sig með prýði að sögn Ingigerðar M. Stefánsdóttur sem er þjálfari strákanna. Laugardagurinn var annar keppnisdagurinn hjá þeim félögum á opna breska meistaramótinu sem fram fer í Sheffield.

Á laugardag synti Ragnar Ingi í undanrásum á tímanum 5.32,76 mín. sem var ekki nógu gott en synti svo í úrslitum á tímanum 5.19,52 mín. og hafnaði fyrir vikið í 8. sæti.

Jón Margeir tvíbætti sinn besta árangur í þessu sundi, í undanrásum synti hann á tímanum 5.12,78 mín og svo í úrslitum á 5.09,80 mín. og varð í 6. sæti.

Gærdagurinn, sunnudagurinn, var síðasti keppnisdagurinn hjá þeim Jóni og Ragnari. Ragnar Ingi gerði ógilt í 100m. flugsundi en synti samt undir sínum besta tíma. Þá synti hann 50m. skriðsund á tímanum 30,06 sek. og í B-úrslitum synti hann á 29,81 sek. sem er við hans besta árangur.

Jón Margeir Sverrisson bætti sig í 100m. flugsundi í gær er hann synti á tímanum 1.15.12 mín. og varð tíundi inn í A-úrslitin. Jón var síðar skráður úr A-úrslitunum til að einbeita sér að 50m. skriðsundskeppninni þar sem hann kom í mark í undanrásum á tímanum 29,34 sek. Í A-úrslitunum í skriðsundinu bætti hann sig svo er hann kom í mark á tímanum 28,91 sek. og hafnaði í 8. sæti í sínum flokki.

Íslenski hópurinn getur vel unað við árangurinn í Sheffield en hópurinn er væntanlegur heim til Íslands síðar í dag.

Mynd: Jón Margeir Sverrisson í miðju flugsundstaki.