30 ára afmælishátíðin í blíðskaparviðri við Elliðavatn


Íþróttasamband fatlaðra fagnaði 30 ára afmæli sínu sunnudaginn 17. maí síðastliðinn. Eins og auglýst var fór afmælishátíðin fram í Krika við Elliðavatn í blíðskaparviðri. Fjölmargir lögðu leið sína í Krika og gæddu sér á grilluðum pylsum og vitaskuld var boðið upp á 30 ára afmælissúkkulaði köku sem mældist vel fyrir hjá gestunum.

Afmælisnefnd ÍF skipuðu þær Camilla Th. Hallgrímsson varaformaður ÍF, Svava Árnadóttir meðlimur í varastjórn ÍF, Margrét Kristjánsdóttir sem m.a. er handhaf Guðrúnarbikarsins frá árinu 2007 og Guðbjörg Eiríksdóttir fyrrverandi stjórnarmaður hjá ÍF. Er afmælisnefnd hér með þakkað innilega fyrir frábæra hátíð.

Fjölmargir komu færandi hendi og má m.a. nefna að Kiwanisklúbburinn Hekla afhendi ÍF myndarlegan fjárstyrk, félögin Eik og Akur gáfu ÍF íslenska fánann, félagar frá Nord-HIF samtökunum gáfu forláta listaverk eftir unga og öfluga færeyska listakonu. Þá voru fleiri sem komu færandi hendi eða sendu skeyti og er þessum aðilum þakkað innilega fyrir sýndan hlýhug á 30 ára afmæli ÍF.

Nú er hægt að nálgast myndasafn á myndasíðu ÍF frá afmælishátíðinni við Krika:
http://if.123.is/album/default.aspx?aid=146926