Jón og Ragnar byrja vel í Sheffield


Sundgarparnir Jón Margeir Sverrisson og Ragnar Ingi Magnússon eru nú staddir í Bretlandi á opna breska sundmótinu sem fram fer í Sheffield. Jón og Ragnar héldu ytra síðastliðinn fimmtudag ásamt þeim Ingigerði M. Stefánsdóttur og Helenu Ingimundardóttur sem eru þjálfarar í ferðinni.

Keppni hófst í gær þar sem Jón Margeir tvíbætti tímann sinn í 200m fjórsundi, fór í A-úrslit og lenti í 5.sæti á tímanum 2.45,74 mín. Ragnar synti svo 100m bak í B-úrslitum og bætti tímann sínn um rúma sekúndu, synti á 1.23,68 mín.

Drengirnir syntu svo báðir í B-úrslitum í 100m skriði, Ragnar bætti sig er hann synti á tímanum 1.07,13 og Jón var alveg við sinn besta tíma á 1.05,63.

Nánari fréttir af hópnum verða birtar um leið og þær berast.

Mynd: Félagarnir Ragnar og Jón Margeir í lauginni í Sheffield.