Þá er komið að síðasta keppnisdeginum á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra. Keppni í frjálsum íþróttum lauk á föstudag þar sem sáust mögnuð tilþrif og þá lauk keppni í lyftingum í gær, laugardag, þar sem Þorsteinn Magnús Sölvason Ólympíumótsfari fór á kostum og setti glæsilegt Íslandsmet.
Sundkeppnin fer fram í Ásvallalaug og hófst síðari keppnisdagurinn kl. 10:00 í morgun og í þessum rituðu orðum er síðari keppnisdagurinn í boccia að hefjast í Laugardalshöll. Keppni í bogfimi lýkur svo kl. 15:00 í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.
Tilþrif gærdagsins eins og áður greinir átti Þorsteinn Magnús Sölvason í lyftingakeppninni þegar hann pumpaði upp 150 kg. í bekkpressu og setti fyrir vikið nýtt Íslandsmet. Þá var þetta þyngsta bekkpressulyfta sem íslenskur keppandi með fötlun hefur lyft! Glæstur árangur hjá Þorsteini sem stefnir ótrauður að því að vinna sér sæti á Ólympíumóti fatlaðara í London árið 2012.
Þess má svo geta að lokahóf Íslandsmóts ÍF fer fram í Gullhömrum í Grafarholti í kvöld og verður húsið opnað kl. 18:00 þar sem Sigga Beinteins og Grétar Örvars munu leika fyrir dansi fram á miðnætti.
Meira síðar...