Framfaraspor segir Sveinn Áki um nýjan samning ÍF og RÍH


Rannsóknastofa í Íþrótta- og heilsufræðum við Háskóla Íslands (RÍH) og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) hafa gert með sér samkomulag um rannsóknir og þróunarstarf með fötluðu íþróttafólki. Samkomulagið felur í sér rannsóknir sem beinast að hreyfigetu og heilsufari einstaklinga með fötlun. Verkefnisstjóri yfir verkefninu verður Ingi Þór Einarsson aðjunkt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Samstarfsamningurinn er til þess ætlaður að meistaranemar við Háskóla Íslands geti unnið meistaraverkefni sín á sviði íþrótta, hreyfigetu og heilsu fatlaðra. Gagnaöflun og gagnavinnsla verkefnisins mun fara fram á RÍH en ÍF styrkir verkefni fjárhagslega og aðstoðar rannsakendur við að komast í samband íþróttafólk með fötlun.

Íþróttasamband fatlaðra gerir væntingar um að rannsóknir á þessu sviði stuðli að framförum á afrekssviði hjá íþróttafólki með fötlun.

,,Við hjá ÍF teljum verkefnið mikið framfaraspor og erum þess fullviss að þetta muni skila sér í fleiri afreksmönnum í íþróttum fatlaðra," sagði Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra við undirritun samningsins.

Mynd: Samstarfssamninginn undirrituðu frá vinstri, Ingi Þór Einarsson aðjunkt, Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Sigurbjörn Árni Arngrímsson dósent í íþróttafræðum við íþróttafræðasetur Háskóla Íslands.