Björn og Sigurlaug afhentu ÍF myndarlegt filmusafn


Ljósmyndarinn góðkunni Björn Pálsson og eiginkona hans Sigurlaug Björnsdóttir færðu Íþróttasambandi fatlaðra veglega gjöf á 30 ára afmælisári sambandsins en ÍF var stofnað þann 17. maí árið 1979. Björn og Sigurlaug afhentu ÍF filmusafn sem Björn hafði haldið til haga af miklum myndarskap en allt frá árinu 1985-2000 var Björn sérlegur hirðljósmyndari Íþróttasambands fatlaðra. Á þessum 15 árum var Björn iðinn við kolann og verður það ÍF sérleg ánægja að fara í gegnum filmurnar sem eru ómetanlegar í söguskráningu sambandsins.

Hjónin afhentu Camillu Th. Hallgrímsson varaformanni ÍF filmusafnið á heimili sínu í Garðabæ síðastliðinn þriðjudag. Filmusafnið verður ÍF til frjálsra afnota á allan hátt er við kemur starfi sambandsins. Hjónin Björn og Sigurlaug gáfu filmusafnið fyrir sína hönd og Hraðmynda en Björn var m.a. eigandi og starfsmaður hraðmynda um áratugaskeið.

ÍF vill koma á framfæri innilegu þakklæti til handa Birni, Sigurlaugu og Hraðmyndum fyrir þetta glæsta framtak.

Myndir: Á efri myndinni eru Björn og Camilla þar sem Björn afhenti varaformanninum gjafabréf en á neðri myndinni eru frá vinstri Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF, Björn Pálsson ljósmyndari, Camilla Th. Hallgrímsson varaformaður ÍF og Sigurlaug Björnsdóttir eiginkona Björns Pálssonar.