Vel heppnað námskeið í Hlíðarfjalli


Námskeið Íþróttasambands fatlaðra og Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands í samstarfi við NSCD í Winter Park fór fram í Hlíðarfjalli dagana 13. - 15. febrúar. Námskeiðið var fullbókað en þátttakendur voru um tuttugu m.a. hreyfihamlaðir, blindir og sjónskertir.   

Hreyfihamlaðir þátttakendur fengu sérhannaða skíðasleða til afnota og gátu valið um sleða með tveimur eða einu skíði. Þrír þátttakendur komu frá endurhæfingardeild Grensás þar sem þeir hafa notið endurhæfingar eftir slys. Aðalleiðbeinandi var Beth Fox, forsvarsmaður NSCD í Winter Park (National Sport Center for disabled). Auk hennar var leiðbeinandi Herbert Wintel frá Þýskalandi og kona hans Hannelore. Herbert er fatlaður skiðamaður sem hefur byggt upp vetraríþróttir fyrir fötluð  börn og unglinga í Þýskalandi og hefur m.a. þjálfað Breka Arnarsson, ungan og efnilegan skíðamann sem bjó erlendis en er nú aftur komin til Akureyrar.  

Markmiðið er að þjálfa íslenska leiðbeinendur á þessu sviði og var áhersla lögð á ráðgjöf og aðstoð við aðstoðarfólk, jafnt skíðakennara, þjálfara sem aðstandendur.

Námskeiðið gekk mjög vel og allir þátttakendur tóku virkan þátt í dagskránni með aðstoð leiðbeinenda og aðstoðarfólks. Alls var hópur fatlaðra þátttakenda, aðstandenda, leiðbeinenda og aðstoðarfólks um 60 manns.

Þátttakendur komu frá Reykjavík og nágrenni, Selfossi, Akureyri, Ísafirði, Egilstöðum og Húsavík.

Í tengslum við námskeiðið var haldinn opinn kynningarfundur á Akureyri föstudaginn 13. febrúar og kynning Háskólanum á Akureyri fyrir nemendur í iðjuþjálfun.

Fleiri myndir frá námskeiðinu eru á www.123.is/if  - Myndataka; AKV