Katrín keppir í dag í Idaho


Eftir um 30 klukkustunda langt ferðalag komst íslenski hópurinn til Idaho í Bandaríkjunum þar sem Vetrarleikar Special Olympics fara fram. Ísland teflir fram einum keppanda í listdansi á skautum en það er hún Katrín Guðrún Tryggvadóttir. Með Katrínu í för eru þær Helga Olsen þjálfari Katrínar og Lilja Sólrún Guðmundsdóttir íþróttagreinastjóri vetraríþrótta Special Olympics á Íslandi.

Móttökurnar voru ekki af verri endanum, glæst móttökusveit ytra fagnaði hópnum við dynjandi lófatak. "Ég held að ég geti fullyrt að svona móttökur hefur enginn af okkur upplifað áður," sagði Helga Olsen þjálfari Katrínar.

Á opnunarhátíð leikanna hélt skautameistarinn Scott Hamilton stutta ræðu og Arnold Schwarzenegger fylkisstjóri í Kaliforníu og fyrrum Tortímandi hélt stutt erindi en hann verður gestur á leikunum. Eftir vel heppnaða opnunarhátíð tóku æfingarnar við en hótelið hjá íslenska hópnum er í göngufæri frá skautahöllinni. Katrín keppir í dag í listdansi á skautum en hún var í 3. sæti eftir skylduæfingarnar og verður fróðlegt að sjá hvernig henni muni ríða af í dag.