Fatlaðir með í fyrsta sinn á RIG mótinu


Búist er við fjölda gesta og keppenda á Reykjavík International Games sem fram fara í Reykjavík um næstu helgi, dagana 16.-18. janúar. Keppt er í fjölda íþróttagreina og nú í fyrsta sinn í sögu RIG mótsins munu fatlaðir íþróttamenn taka þátt. Sundfólk úr röðum fatlaðra mun keppa á mótinu og er vonast til þess að í framtíðinni muni fatlaðir taka þátt í fleiri greinum.

Keppnisgreinar á leikunum eru: sund, sund fatlaðra, frjálsar, badminton, dans, hópfimleikar, skylmingar, keila, listhlaup og júdó.

Alls verða um 50 sundkeppendur með fötlun á mótinu frá fjórum íslenskum aðildarfélögum en Íþróttasamband fatlaðra hefur af þessu tilefni boðið tveimur dönskum sundumönnum á mótið. Það er ÍF mikið gleðiefni að þessir tveir dönsku sundmenn hafa þegar þekkst boðið og mun þeim sérstaklega vera stillt upp í keppni gegn Ólympíumótsförum Íslands 2008 þeim Sonju Sigurðardóttur og Eyþóri Þrastarsyni.

Dagskrá mótsins:
http://rig.is/images/stories/veggspjald.pdf