Nýárssundmót ÍF 4. janúar 2009


Hið árlega Nýárssundmót ÍF fer fram í innilauginni í Laugardal sunnudaginn 4. janúar næstkomandi en mótið er jafnan fyrsta verkefnið á ári hverju hjá Íþróttasambandi fatlaðra. Nýárssundmótið er fyrir fötluð börn og unglinga og er Sjómannabikarinn veittur í hvert skipti fyrir besta sundafrek mótsins. Það var Karen Björg Gísladóttir sundkona úr Firði sem hlaut bikarinn á síðasta móti.

Mótið hefst kl. 15:00 en upphitun kl. 14:00 og heiðursgetur á mótinu verður Halldór Guðbergsson formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Sjómannabikarinn var fyrst veittur árið 1984 en þá var það Sigrún Pétursdóttir úr ÍFR sem fékk hann með 482 stig fyrir 50 m. baksund. Á mótinu er ekki endilega sá sem fyrstur eða fyrst kemur í mark sem vinnur besta afrekið heldur sá eða sú sem nær bestum tíma miðað við sinn fötlunarflokk.

Skráningaeyðublöð hafa þegar verið send út til aðildarfélaga ÍF og mun mótaskrá sem og keppnisdagskráin liggja fyrir milli jóla og nýárs.

Mynd: Frá Nýárssundmóti ÍF 2008