Sérútgáfa Hvata kom út í gær með Fréttablaðinu


Útgáfan á Hvata, tímariti Íþróttasambands fatlaðra, var með breyttu sniði að þessu sinni en í gærdag var fjögurra blaðsíðna kálfi dreift með Fréttablaðinu. Í þessu eintaki af Hvata er Ólympíumót fatlaðra gert upp sem og almenn starfsemi sambandsins kynnt.

Stjórn ÍF tók á dögunum þá ákvörðun að ekki væri við hæfi að gefa út hið veglega tímarit Hvata að þessu sinni þegar litið væri til þjóðfélagsaðstæðna en hvert eintak Hvata hefur að jafnaði verið um 60 blaðsíður í vandaðri prentun. ÍF hefur gefið út Hvata síðastliðin 18 ár og er hlutverk blaðsins að segja frá og kynna starfsemi sambandsins. Ákveðið var að leita ekki til einstaklinga og fyrirtækja eftir styrktarlínum og því þessi leið með Fréttablaðsútgáfu farin að þessu sinni.

Í blaðinu má finna grein um árangur íslensku keppendanna á Ólympíumóti fatlaðra og fleiri skemmtilega fróðleiksmola um það sem framundan er og það sem Íþróttasamband fatlaðra stendur fyrir.

Það er því um að gera að næla sér í Fréttablað gærdagsins og tryggja sér fjórblöðunginn af Hvata.

Mynd: Forsíða Hvata í Fréttablaðinu í gær. Mynd frá lokaathöfn Ólympíumóts fatlaðra í Peking 2008.