Helgina 15.-16. nóvember 2008 var haldinn hinn árlegi fundur hjá Norges idrettsforbund og olympiske og paralympiske komitè. Á námskeiðinu voru fulltrúar frá Noregi, Svíþjóð og Íslandi, alls um 50 manns. Fulltrúar Íslands voru endurhæfingarlæknarnir Guðbjörg Ludvigsdóttir og Guðrún Karlsdóttir en þær eru nýjir liðsmenn Læknaráðs ÍF. Helsta markmiðið var að kynna sér þær reglur sem gilda um flokkanir fyrir fatlaða í íþróttum sem keppt er í á ólympíumótinu.
Fyrri daginn var farið yfir IPC flokkunarkóðann (International Paralympic Committee Classification Code and International Standards). Hann inniheldur þær reglur sem fara þarf eftir þegar íþróttafólk með fatlanir er flokkað. Þar eru reglur um hverjir mega flokka og hvernig skuli standa að flokkunum. Einnig eru reglur um áfrýjanir og kærur. Hlutverk alþjóðlegra nefnda (International Paralympic committee, IPC) og landsnefnda (National Paralympics Committee, NPC) voru einnig útlistaðar.
Fyrirlesarinn var Terrie Moore frá Kanada, en hún er ein af þeim sem sömdu þetta regluverk. Eftir hennar inngang var hópnum skipt upp og rætt var nánar um hlutverk NPC og farið yfir lið númer 16.3 sem snýr að hlutverki þess. Þarna sköpuðust góðar og fróðlegar umræður og leiddist talið fljótt út í að reyna að hefja norrænt samstarf til að sinna þessum störfum. Mikill áhugi er fyrir því sérstaklega þar sem bæði fáir sjá um að flokka innan hverrar íþróttar og oft eru fáir iðkendur sem þarf að flokka innan hverrar íþróttargreinar. Til dæmis eru bara 2 í Noregi og Svíþjóð sem sjá um að flokka íþróttamenn í sund í hvoru landi. Í Noregi eru þau ekki að flokka nema 4-6 einstaklinga á ári. Það er því mikill vilji fyrir því að reyna að sameina þessa krafta. Það myndi bæði gera þjónustuna við íþróttamennina betri og skilvirkari og þeir sem að flokka yrðu hæfari í sínu starfi þar sem að þeir yrðu að flokka fleiri á hverju ári.
Seinni daginn var námskeið á vegum CP ISRA (Cerebral Palsy International
Sports and Recreation Association) um hvernig á að flokka íþróttafólk í boccia
og almennt um flokkanir hjá íþróttafólki sem tilheyra CP ISRA flokknum.
Þetta var mjög fróðlegt og í lok dagsins voru 4 íþróttamenn flokkaðir af
hópnum.