Íþróttasamband Fatlaðra og aðildarfélög ÍF gera sér vel grein fyrir gildi þess starfs sem sjálfboðaliðar hafa unnið til framgangs hreyfingarinnar. Allt frá upphafi hefur stór hópur sjálfboðaliða verið tengdur því starfi sem fram fer, hvort sem um er að ræða verkefni á vegum ÍF eða hvers aðildarfélags. Til að gefa þessu starfi aukið gildi lét ÍF hanna sérstök sjálfboðaliðakort ÍF. Þessi kort hafa verið til staðar í nokkur ár en nú hefur ÍF sent út bréf til aðildarfélaga og hvatt sérstaklega til þess að sjálfboðaliðakort ÍF verði afhent við ákveðin tækifæri. Þannig er staðfest þakklæti hreyfingarinnar í garð sjálfboðaliða og jafnframt er hlutverk þeirra staðfest formlega. Einnig munu sjálfboðaliðar sem starfa að verkefnum ÍF fá sjálfboðaliðakort til staðfestingar á mikilvægi þeirra framlags.
Hlutverk þessa hóps í starfi íþróttahreyfingarinnar hefur ekki verið skilgreint sérstaklega hér á landi. Í starfi Special Olympics International er lögð mikil áhersla á skráningu sjálfboðaliða og hlutverk þeirra.
Staðreyndin er sú að íþróttahreyfingin treystir á sjálfboðaliðastarf. Þrátt fyrir áratuga hefð er mikilvægt að vinna stöðugt að því skapa hvetjandi umgjörð sem gerir sjálfboðaliðastarf áhugavert.
Margir eiga í erfiðleikum í dag vegna utanaðkomandi aðstæðna og hafa þörf
fyrir að fá hvatningu frá nánasta umhverfi. Íþróttahreyfingin þarf að
bregðast við því eins og önnur samtök. Einnig geta slíkar aðstæður skapað aukna
þörf hjá fólki til að sinna verkefnum sem eru hvetjandi og áhugaverð t.d.
innan íþróttahreyfingarinnar. Þannig geta ný tækifæri verið til staðar á
umbreytingartímum.