Sunddrottningin Kristín Rós Hákonardóttir gaf nýverið út sína fyrstu bók og í dag kom hún færandi hendi og afhenti Íþróttasambandi fatlaðra fyrsta eintakið beint úr prentsmiðju. Bókin heitir: Kristín Rós Meistari í nærmynd. Það var Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF sem tók við fyrsta eintakinu úr höndum Kristínar. Uppheimar gefa bókina út.
Bókin er öll hin glæsilegasta skreytt skemmtilegum og áhrifaríkum myndum af ferli Kristínar sem er vægast sagt glæsilegur í alla staði. Kristín Rós Hákonardóttir var einhver fremsti íþróttamaður þjóðarinnar um árabil og hóf að æfa sund með ÍFR árið 1982. Ferillinn spannar 22 ár en að honum loknum hafði Kristín keppt á fimm heimsmeistaramótum, fimm ólympíumótum og sett samtals 66 heimsmet og 9 ólympíumet.
Ludvig Guðmundsson formaður Læknaráðs ÍF er mikill hagyrðingur og í bók Kristínar er að finna texta Ludvigs við lagið Blátt lítið blóm eitt er. Við látum texta Ludvigs um að botna grein þessa og hvetjum alla til þess að gera sér ferð í næstu bóksölubúð og kynna sér allt um Kristínu Rós Hákonardóttur.
Kærasta Kristín Rós
kveikt hefur frægðarljós
Íslands um alla
jörð
og elft vora þjóð.
Í Sydney þú syntir mest
og sýndir að þú ert
best
við dáum og dýrkum þig
drottning vor
góð.
(Texti: Ludvig
Guðmundsson)