Mannauður sem ekki verður metinn til fjár


Læknaráð ÍF hefur vakið athygli samstarfsaðila á Norðurlöndum en mjög erfitt hefur
reynst að fá lækna til starfa hjá samstarfsaðilum ÍF án þess að til komi mikill launakostnaður. Í læknaráði ÍF hafa starfað sérfræðingar sem lagt hafa sig fram um að sinna hverju því verkefni sem upp kemur og allt starf fer fram í sjálfboðavinnu. Helsta hlutverk fulltrúa læknaráðs ÍF hefur verið að sjá um flokkun iðkenda, vera til taks á Íslandsmótum ÍF og vera til staðar á stórmótum erlendis. Einnig að veita ráðgjöf og stuðla að aukinni umræðu um gildi þjálfunar og íþróttastarfs fyrir fatlað fólk.

Gísli Einarsson, yfirlæknir á Landspítala og Magnús B. Einarsson, fyrrv. læknir á Reykjalundi störfuðu með ráðinu til fjölda ára en hafa nú dregið sig út úr því starfi. Þeir hafa skilað gífurlega mikilvægu starfi og eru áfram liðsmenn ÍF sem hægt er að leita til þegar þörf er á.

Ludvig Guðmundsson, formaður læknaráðs ÍF hefur verið fulltrúi læknaráðs ÍF í fjölmörg ár og er ötull að afla nýrra liðsmanna. Hann hefur lagt áherslu á að í læknaráði ÍF séu ekki aðeins læknar, heldur einnig sjúkraþjálfari, sálfræðingur og hjúkrunarfræðingur. Á fundi læknaráðs ÍF þann 13. september var staðfest að í ráðinu eru nú læknar, sálfræðingur, hjúkrunarfræðingur og sjúkraþjálfari.

Læknaráð ÍF október 2008
Gerður A Árnadóttir, Læknir, Heilsugæslunni Garðabæ og formaður Þroskahjálpar
Ólöf H Bjarnadóttir, Læknir Reykjalundi
Guðrún Karlsdóttir, Læknir Grensás
Áslaug Sigurjónsdóttir, Hjúkrunarfræðingur, Grensás
Guðbjörg Kristín Ludvigsdóttir, Læknir í London
Ludvig Guðmundsson, Læknir Reykjalundi
Tryggvi Sigurðsson, sálfræðingur Greiningar og ráðgafarstöð ríkisins
Sveinbjörn Sigurðsson, sjúkraþjálfari í Hafnarfirði.

Íþróttasamband Fatlaðra hefur byggt starfsemi sína á sjálfboðaliðastarfi fjölda fólks sem gefið hefur kost á sér í hinar ýmsu nefndir og ráð sambandsins. Sérgreinanefndir starfa að uppbyggingu einstakra íþróttagreina og ýmis sérráð og nefndir starfa að afmörkuðum verkefnum. Þeir sem kynna sér starfsemi ÍF gera sér fljótlega grein fyrir því að sú umfangsmikla starfsemi og fjölbreyttu verkefni sem í gangi eru kalla á sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum. Skrifstofa ÍF þar sem starfa þrír starfsmenn heldur utan um heildarstarfsemi ÍF og Special Olympics. Stjórn og starfsmenn ÍF hafa reynt að stuðla að jákvæðu umhverfi og umgjörð fyrir þá sem vilja leggja starfinu lið og traust samskipti eru ráðandi.

Það er öllum ljóst að í nútímasamfélagi getur reynst erfitt að fá sjálfboðaliða til starfa. Framlag sjálfboðaliða í starfsemi ÍF er forsenda öflugs starfs og þar er mannauður til staðar sem ekki verður metinn til fjár. Á tímum samdráttar og erfiðleika í efnahagslífinu sem snertir íþróttahreyfinguna fjárhagslega ekki síður en önnur félagasamtök er mikilvægt að meta að verðleikum aðra þá þætti sem starfið byggist á.

Mynd: Ludvig Guðmundsson læknir að störfum á Ólympíumótinu í Peking.