Met slegið í lyfjaprófunum í Peking


Ólympíumót fatlaðra fór fram í Peking í Kína dagana 6.-17. september á þessu ári og
hefur Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) gefið það út að metfjöldi lyfjaprófana
hafi farið fram á mótinu. Aðeins þrír einstaklingar stóðust ekki lyfjapróf en allir
voru þeir lyftingamenn og féllu á prófunum áður en keppni á mótinu hófst.

Alls voru gerð 1155 lyfjapróf á Ólympíumóti fatlaðra og 317 þeirra voru gerð utan
keppnisdagskrár. Alls 838 lyfjapróf voru gerð á meðan keppni stóð. Til samanburðar
voru gerð 680 lyfjapróf á Ólympíumóti fatlaðra í Aþenu 2004 og telur IPC að miklum
árangri hafi verið náð í Peking í baráttunni gegn lyfjamisnotkun í íþróttum.

Sir Philip Craven formaður IPC sagði á heimasíðu IPC: "Þó IPC hafi ekki náð sínu
marki með að halda Ólympíumót án lyfjamisnotkunar íþrótamanna viljum við koma á
framfæri að leikarnir í Peking voru glæst skref fyrir IPC í átt að því að verða
samband sem sækir til þaula það að fylgja sínum markmiðum um jafnan leik. Við þökkum
öllum okkar félögum og samstarfsmönnum fyrir þeirra mikla framlag."

Tveir íslenskir keppendur voru lyfjaprófaðir í Peking en það voru lyftingamaðurinn
Þorsteinn Magnús Sölvason frá ÍFR og Eyþór Þrastarson, ÍFR, og stóðust þeir prófið með miklum glæsibrag. Þá voru allir íslensku keppendurnir lyfjaprófaðir á Íslandi áður en haldið var út og stóðust allir fimm keppendurnir þau próf.