ÍF sótti veglegt boð forseta að Bessastöðum


Föstudaginn 3. október síðastliðinn buðu forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff Ólympíumótsförum Íþróttasambands fatlaðra og aðstandendum þeirra til síðdegisveislu að Bessastöðum.

Ólafur Ragnar bauð hópinn velkominn á þjóðarheimilið og sagði m.a. í ræðu sinni að sigur þeirra íþróttamanna sem komust fyrir Íslands hönd á Ólympíumót fatlaðra sem og Ólympíuleikana sjálfa væri mikill sigur út af fyrir sig. Þá nefndi Ólafur að hann hefði verið ákaflega stoltur af því að Ísland skyldi ávallt senda jafn vaskar sveitir á þessi stóru mót þar sem aðrar og jafnvel fjölmennari þjóðir ættu sumar hverjar ekki fulltrúa eða þá mjög fáa úr sínum röðum.

Forseti beindi svo orðum sínum til Ólympíumótsfara ÍF þegar hann sagði að þessir fimm einstaklingar, Jón Oddur, Þorsteinn, Sonja, Eyþór og Baldur væru öðru fólki með fötlun mikill innblástur og fyrirmynd fyrir afrek sín á íþróttasviðinu.

Hópur ÍF fékk svo að litast um á Bessastöðum þar sem marga gersemina bar fyrir augu á borð við gjafir frá sveitarfélögum hér innanlands sem og virtum þjóðhöfðingjum víðsvegar að úr heiminum.

Íþróttasamband fatlaðra þakkar kærlega fyrir mótttöku þeirra forsetahjóna að Bessastöðum.

Mynd: Keppendur Íslands á Ólympíumóti fatlaðara í Peking 2008 ásamt forsetahjónunum Ólafi Ragnari og Dorrit.

Hér á slóðinni að neðan má nálgast fleiri myndir frá heimsókn ÍF að Bessastöðum:
http://album.123.is/?aid=119266