Sterkasti fatlaði maður heims 17.-18. október


Dagana 17.-18. október næstkomandi fer fram Sterkasti fatlaði maður heims en mótið fer nú fram í sjötta sinn hér á Íslandi. Arnar Már Jónsson landsliðsþjálfari Íþróttasambands fatlaðra í lyftingum og lyftingaþjálfari hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík er forvígsmaður keppninnar og býst hann við hörkukeppni þetta árið.

„Þetta er eina mótið sinnar tegundar í heiminum og er haldið í nafni Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík. Mótið verður stærra með hverju árinu og búist er við harðri keppni þetta árið. Fjölmiðlar hérlendis hafa jafnan sýnt mótinu mikinn áhuga og því von á skemmtilegri umfjöllun en ég skora á sem flesta að leggja leið sína á keppnisstaðina og fylgjast með þessum afreksmönnum í hrikalegum aflraunum,“ sagði Arnar.

Föstudaginn 17. október verður keppt í Smáralindinni frá kl. 14:00 en laugardaginn 18. október verður farið víða og hefst keppni kl. 10.00 á Fjörukránni. Þaðan verður farið í Intersport í Lindum kl. 13:00 og lýkur keppni í ÍFR Húsinu að Hátúni 14 í Reykjavík. Keppni í ÍFR húsinu hefst kl. 16:00 en þar verður sterkasti fatlaði maður heims í hjólastólaflokki og standandi flokki krýndur.

Þorsteinn Magnús Sölvason Ólympíumótsfari Íþróttasambands fatlaðra verður á meðal keppenda í mótinu en þess má geta að hann og Ulf Eriksson frá Svíþjóð eru einu tveir fötluðu lyftingamenn heims sem hafa lyft 90kg. Atlassteininum í steinatökunni.

Ulf er ríkjandi meistari og má búast við því að hann fá mikla samkeppni frá Finnanum og fjórföldum heimsmeistara Tafo Jettajorvi en vissulega munu íslensku keppendurnir láta vel fyrir sér finna og gera atlögu að öllum þeim verðlaunum sem í boði verða.

Nánari upplýsingar um mótið veitir Arnar Már Jónsson skipuleggjandi mótsins.
GSM: 868 6823 – loggurinn@hotmail.com

Mynd: Frá keppninni Sterkasti fatlaði maður heims árið 2006.