Sonja fékk drottningarmeðferð á múrnum


Þegar keppni lauk hjá Íslandi á Ólympíumóti fatlaðra í Peking tók við þétt skemmtidagskrá og í henni fólst m.a. heimsókn á hinn heimsfræga Kínamúr. Aðstæður til þess að heimsækja Kínamúrinn voru allar hinar bestu, skyggni gott og allir í gönguskónum en enginn hafði þó reimað þá fastar en garpurinn og íþróttafréttamaðurinn Adolf Ingi Erlingsson.

Aðstæður fyrir fólk með fötlun við heimsókn á Kínamúrinn eru erfiðar og því fékk Sonja Sigurðardóttir að kynnast. Adolf Ingi var fljótur að átta sig og bauð Sonju á hestbak og bar hana á bakinu vítt um múrinn. Sonja var Adolfi að vonum þakklát fyrir framtakið en gamli skíðagarpurinn lét sig ekki muna um þetta smáræði og skömmu síðar var hann mættur framan við myndatökuvélina að bæta enn í veglega sögu um Kínaferð Íþróttasambands fatlaðra.

Íslenski hópurinn kom heim seint á fimmtudagskvöld og fékk hann höfðinglegar mótttökur. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF tók á móti hópnum með blómum sem og þau Ólafur Rafnsson formaður ÍSÍ og Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ. Þá voru stjórnarmenn ÍF einnig viðstaddir komu íslenska hópsins til Íslands og tóku hlýlega á móti ferðalöngunum.